Kórónaveiran gæti kostað kínverska efnahagskerfið 300 milljarða evra, eða um 2,5 prósent af allri landsframleiðslu, samkvæmt útreikningum rannsóknarsetursins Complexity Science Hub í Vínarborg. Þar kemur fram að veiran gæti kostað austurríska hagkerfið 1,1 milljarð evra. Fjallað er um þetta í austurrískum fjölmiðlum.
COVID-19 kórónaveiran gæti einnig sett stórt strik í reikninginn í ferðaþjónustunni á Íslandi. Fjöldi hópa frá Kína hafa þegar afbókað gistingu á hótelum á Íslandi út febrúar. Að öllu óbreyttu gæti Ísland misst rúmlega 5800 ferðamenn í febrúar vegna ferðabannsins.
Um 60 prósent af kínverskum ferðamönnum sem koma hingað til lands ferðast í hópum. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu Íslands komu 7.728 manns frá Kína í janúar árið 2019 og 9.829 manns í febrúar.
Þriðjungur íslensku þjóðarinnar hefur miklar áhyggjur af því að COVID-19 kórónaveiran berist til landsins samkvæmt þjóðarpúls Gallup. Þjóðin skiptist nokkuð jafnt í fylkingar þegar kemur að ótta við veiruna en þriðjungur segist lítið óttast sjúkdóminn og sama óttast það hvorki mikið né lítið.